Frambjóðendur 2018

Frambjóðendur 2018

Mál málanna

 • Héraðslistinn

  Virðing, kraftur og gleði
  Samtök félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði – Héraðslistinn (X-L) ber virðingu fyrir íbúum og samverkafólki, umhverfinu og verkefnunum. Héraðslistinn hefur þann kraft sem þarf til að bera hugsjónir og hugmyndir áfram þannig að þær verði að raunveruleika. Og gleðin er með í farteskinu! Stefna listans er skýr og ábyrg, hún er í takt við þann fjárhagslega raunveruleika sem sveitarfélagið býr við en er um leið stórhuga því Héraðslistinn trúir á framtíð Fljótsdalshéraðs og Austurlands alls.
 • Stjórnsýslan

  Það er eilíft verkefni stórs sveitarfélags eins og Fljótsdalshéraðs að tryggja jafnræði íbúa sinna. Með auknu samstarfi og mögulegri sameiningu sveitarfélaga verður þetta verkefni enn mikilvægara. Héraðslistinn mun beita sér fyrir því að skoðað verði hvernig lýðræðisskipulag tryggir íbúum í fjarlægari sveitum aðgengi og áhrif á málefni sveitarfélaganna. Þá verður að gera stjórnsýslu sveitarfélagsins þannig úr garði að hún sé skilvirk, opin og gagnsæ. Sveitarfélagið, starfsmenn þess og kjörnir fulltrúar eiga að starfa fyrir íbúana sem eiga rétt á að fylgjast með starfinu á öllum stigum þess.

  Héraðslistinn styður jafnræði og rétt allra íbúa sinna til upplýsinga því það er mál málanna

 • Samstarf og sameining sveitarfélaga

  Aukið samstarf sveitarfélaga á Austurlandi er besta leiðin til að tryggja áframhaldandi öflugt samfélag í landshlutanum. Héraðslistinn mun beita sér fyrir því að Fljótsdalshérað taki með opnum huga þátt í sameiningarviðræðum við áhugasöm nágrannasveitarfélög á kjörtímabilinu með hagsmuni allra íbúa að leiðarljósi. Samhliða verður áfram unnið að sameiginlegum verkefnum sveitarfélaganna, m.a. á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Má þar nefna svæðisskipulag, húsnæðisáætlun, ljósleiðaraáætlun og vinnu við áfangastaðinn Austurland.

  Héraðslistinn styður samstarf og sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi því það er mál málanna

 • Umhverfið

  Umhverfið, náttúran, andrúmsloftið – þessi málaflokkur hefur aldrei áður verið jafn mikilvægur öllum íbúum, ekki bara á Fljótsdalshéraði, heldur um veröld alla. Héraðslistinn leggur alla áherslu á að á kjörtímabilinu verði gengið frá fráveitumálum þannig að öllum kröfum um vernd umhverfisins sé mætt, kerfi sorpflokkunar verði bætt enn frekar þannig að íbúar geti lagt sitt af mörkum til vernda umhverfið, sveitarfélögin vinni saman að því að gera orkuskipti raunhæfan möguleika á Austurlandi. Þá vill Héraðslistinn styðja með ráðum og dáð við aukningu nýskógræktar enda er það einföld, áhrifarík og gerleg leið til að binda kolefni og fjölga störfum á landsbyggðinni.

  Héraðslistinn styður umhverfismál því þau eru mál málanna

 • Fráveitumál

  Það er á ábyrgð kjörinna sveitarstjórna að leggja línur í umhverfis- og náttúruverndarmálum.

  Vandamál fráveitunnar er að það er alltof mikið af hreinu vatni í skolplögnunum. Það veldur of miklu álagi á hreinsivirkin. Héraðslistinn leggur megin áherslu á að fram fari kerfisbundin leit að því hvar hreint vatn lekur inn í fráveitukerfið svo hægt sé að koma hámarksrennsli niður fyrir 100 lítra á sekúndu. Ef það næst, dugar að fara í stækkun núverandi hreinsivirkis við Melshorn til að ná að hreinsa fráveitu frá suðurhluta Egilsstaða, stækkun hreinsivirkis í Smárahvammi fyrir Fellabæ og hreinsivirkis á Hallormsstað til að ná utan um aukningu þar. Stofnkostnaður við þessa leið er að mati Héraðslistans svipaður og núverandi tillaga HEF gerir ráð fyrir en slíkt kerfi yrði talsvert dýrara í rekstri. Þessi leið þýðir að sveitarfélagið verður komið með fullkomna hreinsun fráveitu til framtíðar sem stenst kröfur íslenskra laga og Staðardagskrár 21. Og Eyvindaránni yrði borgið!

  Héraðslistinn gerir ráð fyrir að hluta framkvæmdanna geti þurft að fjármagna með lántöku, m.a. vegna stækkunarinnar við Melshorn. Það er hins vegar ljóst að hér verða hagsmunir umhverfisins að njóta vafans.

  Héraðslistinn styður umhverfismál því þau eru mál málanna

 • Velferð og þekking

  Samfélag sem ekki hlúir að börnum og foreldrum þeirra á sér ekki framtíð. Það er forgangsverkefni Héraðslistann að búa sveitarfélagið þannig úr garði að fjölskyldur sjái sér hag í því að setjast hér að eða búa hér áfram. Við gerum það með því að vinna að framtíðardagvistunarlausnum fyrir allra yngstu börnin, með því að tryggja aðgengi allra barna að fjölbreyttum tómstundum, með öflugum skólum þar sem áherslan er á hlúa að hverjum og einum á jafnréttisgrundvelli og mannauður og aðstaða er nýtt á skynsamlegan hátt. Héraðslistinn mun einnig beita sér fyrir því á kjörtímabilinu að endurskoðaðir verði samningar við íþróttafélög svo hagsmunir íbúa og sveitarfélagsins séu tryggðir. Síðast en ekki síst eiga eldri borgarar að geta notið efri ára sinna í þeirri fullvissu að öll þjónusta sem þeir kunna þurfa á að halda eða vilja nýta sé til staðar.

  Héraðslistinn styður við velferð íbúa sinna því það er mál málanna

 • Atvinnulíf, menning og mannlíf

  Allt starf sem lýtur að því að gera sveitarfélagið að fegurri og áhugaverðari áfangastað, hvort heldur er fyrir ferðamenn eða nýja íbúa, er mikilvægt framlag til atvinnu- og fjármála þess. Fjölbreytt atvinnulíf kallar á fleiri íbúa, sem þýðir auknar útsvarstekjur, og margvísleg afþreying, fallegt umhverfi, kröftug menning og mannlíf draga að gesti sem styrkir og eflir þjónustu á svæðinu. Héraðslistinn mun beita sér fyrir því að skilgreina sérstöðu atvinnulífsins á svæðinu og styðja við hana með öflugum innviðum. Sérstaklega verði unnið að gerð móttökuáætlunar fyrir nýja erlenda íbúa en þeir eru samfélaginu verðmætir. Brýnt er að allir leggist á eitt um að gera þeim kleift að aðlagast og una hag sínum vel.

  Héraðslistinn styður öflugt og fjölbreytt atvinnu-, menningar- og mannlíf enda eru þau mál málanna

Héraðslistinn - Samtök félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði
kt. 670498-2129
Fjósakambi 14
701 Egilsstaðir