Leiðarljós

 • Á Fljótsdalshéraði verður að þrífast fjölbreytt frístundastarf. Til þess að svo megi verða þarf að efla ungliðastarf frjálsra félagasamtaka og virkja mannauðinn á svæðinu.
 • Áfram verði unnið að því að efla Austurlandsmódelið svokallaða sem byggir á heildstæðri sýn í félags- og velferðarmálum og það nýtt sem fyrirmynd fyrir önnur verkefni svipaðs eðlis. Þá er mikilvægt að leita leiða til að auka samstarf félagsþjónustu sveitarfélagsins og heilbrigðisþjónustunnar.
 • Ávallt verður að mæta einstaklingum af virðingu og styðja þá til virkni.
 • Brýnt er að félagsþjónusta sveitarfélagsins bjóði upp á fjölbreytt úrræði sem sniðin eru að þörfum hvers og eins. Unnið verði að því á kjörtímabilinu í samvinnu við önnur sveitarfélag að fjölga sálfræðingum á Skólaskrifstofu Austurlands svo stytta megi biðlista barna og unglinga eftir greiningu og ráðgjöf.
 • Faglegt starf skóla á Fljótsdalshéraði verði eflt og styrkt og öllum börnum tryggð sambærileg þjónusta.
 • Gerð verði móttökuáætlun fyrir íbúa af erlendum uppruna, sem flytja í sveitarfélagið. Sérstaklega verði hugað að stuðningi í íslensku- og móðurmálskennslu fyrir tvítyngd börn.
 • Leitað verði eftir og eflt samstarf við nágrannasveitarfélögin um forvarnir fyrir börn og unglinga.
 • Sérstaklega verði hugað að þjónustu við eldri borgara á kjörtímabilinu. Skoðaðar verði fyrirmyndir frá m.a. höfuðborgarsvæðinu og norrænu löndunum um samspil ungra og eldri íbúa sveitarfélagsins.
 • Sérstök áhersla verður á að skoða þjónustu dagforeldra og samspil leikskóla og dagforeldra. Skoðað verði hvernig auðvelda má áhugasömum að stíga skrefið yfir í að verða dagforeldrar.
 • Skoðað verði samstarf við Skógræktina um skipulag afþreyingar í skógum svæðisins.
 • Skoðaðar verði allar leiðir sem auka fjölbreytni í kennsluháttum, m.a. aukið aðgengi að spjaldtölvum, samhliða starfsþróun kennara og fagaðila skólanna.
 • Styðja áfram við metnaðarfullt starf íþróttafélaga. Tekið verði tillit til vinnu starfshóps um framtíðarsýn knattspyrnu sem gert er ráð fyrir að ljúki störfum síðar á árinu 2018.
 • Uppbyggilegt og metnaðarfullt starf í fræðslustofnunum er forsenda félagslegs réttlætis og jöfnuðar í samfélaginu. Þar eiga öll börn að geta notið sín, vaxið og dafnað. Lokið verði vinnu við gerð menntastefnu sveitarfélagsins í samvinnnu við þá sem hlut eiga að máli.
 • Bæta umhirðu og ásýnd miðbæjarins í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir. Leitað verði eftir samstarfi við sömu aðila, frjáls félagasamtök og íbúa um nýtingu ákveðinna svæða.
 • Gera áætlun um grisjun og gróðursetningu innan þéttbýlis.
 • Hafa í boði lóðir og aðstöðu til mismunandi atvinnureksturs. Mikilvægt er að talsmenn sveitarfélagsins haldi á lofti þeim möguleikum sem í boði eru og veki á jákvæðan hátt athygli á gæðum sveitarfélagsins.
 • Haldið verði áfram að endurskipuleggja rekstur félagsheimila með aðkomu nærsamfélagsins.
 • Haldið verður áfram með uppbyggingu Safnahússins og starfsemi safnanna í húsinu styrkt.
 • Ljúka gerð samnings við hið opinbera um menningarhús í samræmi við ákvæði fjármálaáætlunar 2018-2022.
 • Mótuð verði stefna um viðburðahald/bæjarhátíðir á vegum sveitarfélagsins á fyrrihluta kjörtímabilsins.
 • Nýtt verði nýafstaðin kortlagning innviða til frekari kynningar og fjölgunar á möguleikum til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Horfa þarf til nýtingar heita vatnsins,
 • Sláturhúsið er menningarhús Fljótsdalshéraðs. Unnið verður áfram að endurbótum á því þannig að þar þrífist fjölbreytt menningarstarfsemi.
 • Stuðla að gróskumikilli nýsköpun bæði á vegum einkaaðila en ekki síður á vegum sveitarfélagsins sjálfs, s.s. í stjórnsýslu og þjónustu.
 • Unnið áfram að hugmyndum um uppbyggingu fræðastarfs og ferðaþjónustu á Úthéraði.
 • Almenningssamgöngur verði efldar og þrýst áfram á stjórnvöld um að skilgreina innanlandsflug sem almenningssamgöngur.
 • Auka enn frekar endurvinnslu sorps og upplýsa íbúa reglulega um árangur í flokkun.
 • Á kjörtímabilinu verði unnið eftir nýrri umferðaröryggisáætlun í samstarfi við Vegagerð ríkisins svo auka megi öryggi vegfarenda í þéttbýli á Fljótsdalshéraði, ekki síst þar sem þjóðvegur liggur í gegnum miðbæjarkjarna svæðisins.
 • Áfram verður þrýst á um að ný Lagarfljótsbrú komist sem fyrst inn á samgönguáætlun hins opinbera.
 • Fljótsdalshérað verði fyrirmyndarsveitarfélag í umhverfismálum og hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Náttúruvernd og virðing fyrir fjölbreytni náttúrunnar er forsenda skynsamlegrar nýtingar og virða ber rétt almennings til að njóta íslenskrar náttúru.
 • Kláruð verði vinna við gerð áætlunar um hjóla- og göngustíga á svæðinu í samræmi við stefnu Áfangastaðarins Austurlands. Leitað verði eftir styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
 • Ljúka verður deiliskipulagi í miðbæ Egilsstaða á kjörtímabilinu og aðlaga það að breyttum aðstæðum. Hugað verði sérstaklega að gangandi og hjólandi vegfarendum.
 • Skipulag á fyrst og fremst að vera í anda sjálfbærrar þróunar. Gera verður ráð fyrir skynsamlegri landnýtingu, góðum almenningssamgöngum, hjólastígum og blómlegu mannlífi.
 • Sveitarfélagið verði plastpokalaust samfélag á kjörtímabilinu.
 • Til að auka vægi umhverfismála er lagt að þau heyri undir náttúruverndarnefnd. Unnin verði áætlun um náttúruvernd í sveitarfélaginu í samráði við íbúa, landeigendur og yfirvöld umhverfismála og að aukið samstarf verði haft við nágrannasveitarfélögin í umhverfismálum.
 • Unnið verður áfram markvisst að því í samráði við vegamálayfirvöld að leggja bundið slitlag á tengivegi í sveitarfélaginu og bæta vegakerfið almennt.
 • Unnið verði eftir samþykktri áætlun bæjarstjórnar varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja.
 • Allt starf og kynning á vegum sveitarfélagsins taki mið af því að Fljótsdalshérað er heilsueflandi samfélag.
 • Brýnt er að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur í fjármálum sveitarfélagins og vinna áfram að bættum fjárhag þess. Ábyrg og gagnsæ fjármálastefna skilar árangri. Mikilvægt er að um hana ríki víðtæk pólitísk sátt.
 • Farið verði í sérstakt kynningarátak á vefgáttinni Betra Fljótsdalshérað.
 • Ljúka skal endurskoðun starfsmannastefnu sveitarfélagsins og horfa til þess að Fljótsdalshérað er stór vinnuveitandi sem þarf að hlúa vel að starfsmönnum og huga að velferð þeirra.
 • Lögð verði aukin áhersla á viðtalstíma bæjarfulltrúa, þeir fari fram á ólíkum stöðum í sveitarfélaginu og verði eftir efnum og aðstæðum þematengdir.
 • Mótuð verði lýðræðisstefna með það að markmiði að virkja íbúa til þátttöku í málefnum og stefnumótun. Hluti af því er að tryggja íbúum gott aðgengi að upplýsingum, opna starf fastanefnda, t.a.m. með samtalsfundum, auk þess sem aukin áhersla verður á kynna starf nefndanna, m.a. með upplýsinga– og samráðsfundum.
 • Stjórnsýsla sveitarfélagsins þarf að vera öflug, einföld og skilvirk og ákvarðanir skýrar og vel rökstuddar. Byggja skal á jafnræði íbúa og skýrum reglum. Verkefni bæjarstjórnar er að marka stefnu og horfa til framtíðar. Nefndir sveitarfélagsins fái rétt til fullnaðarafgreiðslu mála að svo miklu leyti sem slíkt er mögulegt enda getur það flýtt fyrir afgreiðslu mála.
 • Viðhalda jafnréttisnefnd sem sjálfstæðri nefnd, ekki síst með tilliti til vinnu við innleiðingu jafnlaunastaðals hjá sveitarfélaginu. Sveitarfélagið ætti að leggja sérstaka áherslu á að vera í fararbroddi í jafnréttismálum.

Héraðslistinn - Samtök félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði
kt. 670498-2129
Fjósakambi 14
701 Egilsstaðir